Posts

Beitan, nóvember 2012

Beitan, óreglulegt fréttabréf um farsíma og spjaldtölvur frá TVR, er komin út. Í þessari nóvember-útgáfu kennir ýmissa grasa.

Meðal efnis í Beitu nóvember er:

TVR_Beitan_nov12-front Skýað en bjart framundan, sem fjallar m.a. um þróun tölvuskýja og áhrif þeirra á notkunarmöguleika snjaææsíma og spjaldtölva.
Beitan-nov12-MarketShareOS Android eykur forskotið, sem fjallar um þróun í markaðshlutdeild stýrikerfa fyrir snjallsíma þar sem sviptingar hafa verið með mesta móti síðustu misserin.
Beitan-nov12-LeikurLaera Nýjar leiðir færar í rekstri fyrirtækja og stofnana, sem fjallar m.a. um tækjastjórnun (MDM) og öryggismál, auk þess sem fjallað er stuttlega um þá miklu möguleika sem spjaldtölvur bjóða upp á í þróun skólastarfs.

 

Jafnframt er hægt að nálgast PDF útgáfu af Beitunni hér.

Skýjað en bjart framundan

Snjallsímar kalla á gagnageymslur „í skýinu“
Sveinn Tryggvason, framkvæmdastjóri TVR

Það hefur naumast farið fram hjá nokkrum manni að þróun í farsímatækni hefur verið afar hröð að undanförnu. Í stað „gömlu takkasímanna“ sem unga fólkið notaði einnig til að senda stöku smáskilaboð eru komnir snjallsímar sem skilja flestar borðtölvur síðasta áratugar eftir með ryk í geisladrifinu. Framþróun síðustu ára í örtölvutækni, skjátækni, landupplýsingakerfum, staðsetningatækni, gagnaflutnigsgetu fjarskiptakerfa og á fleiri sviðum hefur opnað nýjar gáttir á sviði afþreyingar, fjölmiðlunar, greiðslumiðlunar, ferðaþjónustu og samskipta svo nokkur dæmi séu tekin. Hugmyndir sem fyrir nokkrum árum komust vart lengra en inn í glærukynningar eru orðnar að veruleika og sífellt bætast nýjar í hópinn.

Tilurð tölvuskýja (e. Cloud Computing) er lykilþáttur í þróun undanfarinna ára sem m.a. opnar nýjar leiðir í hópvinnu, gagnageymslu og ýmiskonar tölvuvinnslu án tillits til þess hvernig tækjabúnað eða stýrikerfi notendur eru með. Þessi tækni á ríkan þátt í því hvernig Google og Android hafa getað vaxið með eins undraverðum hætti og raun ber vitni – en daglega eru um 1,3 milljónir Android tækja virkjuð!

Þessi þróun felur ennfremur í sér gríðarleg tækifæri fyrir stofnanir og fyrirtæki í öllum geirum – til hagræðingar, endurskipulagningar verkferla (BPR) og skilvirkari fjarvinnu, svo einhver dæmi séu nefnd. Það er því eftir miklu að slægjast fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir.

Fremsti framleiðandi heims á Android snjallsímum og spjaldtölvum er án efa Samsung. Galaxy  símarnir hafa notið gríðarlegra vinsælda um allan heim og var Galaxy SII valinn sími ársins 2011. Nú þegar hafa nokkrir aðilar þegar valið Galaxy SIII síma ársins 2012. Nýjustu fulltrúar í „stjörnuþokunni“ – ofursíminn Galaxy Note II og Galaxy Note 10.1 spjaldtölvan – eru með þrýstingsnæmum penna og bjóða notendum þannig uppá nýstárlegar leiðir til að vera skilvirkir, fjölhæfir og skapandi.

Frónbúar geta ennfremur horft björtum augum fram á veginn og glaðst yfir því að Android tækin frá Samsung geta ekki aðeins skrifað „þ“ og „ð“ heldur skilja tækin mælt íslenskt mál – þökk sé brautryðjendastarfi Google, HR og Máltækniseturs við söfnun íslenskra raddsýna í opinn gagnagrunn sem kallast Almannarómur.