Straumhvörf í skólastarfi

Þótt tölvutæknin hafi um margra ára skeið haft margvísleg áhrif á skólastarf er tæplega hægt að halda því fram að hún hafi valdið straumhvörfum. Á yngstu skólastigunum má raunar segja að áhrif tækninnar hafi verið fremur lítil. Eftir því sem tölvubúnaður hefur orðið handhægari og hugbúnaður öflugri hafa skapast forsendur fyrir afar spennandi breytingar ef vel er á málum haldið.

Ein skýrasta birtingarmynd þróunar í tölvumálum síðustu ár er spjaldtölvan. Vegna þess hve létt og handhæg spjaldtölvan er og hversu fjölhæfan hugbúnað er hægt að fá fyrir spjaldtölvur eru möguleikar til hagnýtingar þeirra í skólastarfi gríðarlegir. Að sama skapi hefur tilurð svokallaðra tölvuskýja opnað fjölmarga möguleika. Í sameiningu bjóða spjaldtölvan og tölvuský upp á fjölmarga spennandi möguleika til þróunar á skólastarfi. Hér að neðan eru nokkur dæmi:

  • Rafbækur – Léttari, ódýrari og umhverfisvænni bækur sem henta öllum skólastigum en þó ekki síst eftir því sem nemendur eru eldri og námsefnið þyngra (í kílóum talið) og jafnvel torvelt að nálgast efnið á hefðbundnu bókarformi. Mörg lesforrit fyrir rafbækur bjóða upp á yfirstrikun, glósur, bókamerki o.fl sem hjálpar við lestur námsbóka. Auk þessa getur fólk með lestrarörðugleika haft hag af möguleikum rafbóka til leturbreytinga o.fl.
  • Gagnvirkt kennsluefni – Ljóslifandi og gagnvirkt kennsluefni nýtur sín vel á snertiskjá sem hrífur nemandann með. Þessi notkunarmöguleiki hentar yngstu nemendunum hvað best og þegar er til mikið af forritum og leikjum sem auðvelda krökkum að þekkja bók bókstafina, að draga til stafs eða reikna einföld reikningsdæmi.
  • Ritun og teikning – Sumar spjaldtölvur (t.a.m. Galaxy Note) bjóða upp á mjög nákvæman (og forritanlegan) penna sem nota má í gagnvirkum ritunaræfingum, teiknikennslu og ýmsum öðrum skapandi greinum.
  • Spegluð kennsla – Spjaldtölvur henta einkar vel fyrir nemendur að fylgjast með heilum fyrirlestrum eða til að taka á móti innlögn á tilteknu námsefni með myndböndum líkt og gert er ráð fyrir í speglaðri kennslu (e. flip teaching, flipped classroom)
  • Tungumálakennsla – Margmiðlunarmöguleikar spjaldtölva bjóða upp á að nemendur hlýði á hlustunaræfingar og geri hljóð- og/eða myndupptökur af eigin framburðaræfingum í tungumálakennslu. Rafrænar orðabækur (með framburðardæmum) falla einnig vel að þessum tækjum.
  • Stærðfræði – Úrvalið af stærðfræðileikjum fyrir yngstu kynslóðina er þegar mjög mikið og vaxandi auk þess sem sífellt bætast við forrit fyrir stærðfræði á háu stigi. Galaxy Note spjaldtölvan býður t.d. upp á að handskrifa stærðæðiformúlur sem spjaldtölvan birtir síðan myndrænt með aðstoð WolframAlpha – sjá mynd hér að neðan.

Galaxy NoteÞetta eru aðeins nokkrir af þeim möguleikum sem hægt er að hugsa sér hvernig unnt er að flétta notkun spjaldtölva inn í nám og kennslu. Einn megin ávinningurinn sem ofangreind þróun býður upp á er að tími nemenda og kennara nýtist betur ef vel er að málum staðið. Vel er hægt að ímynda sér að drjúgan hluta kennsluefnis sé hægt að endurnýta milli kennara, milli skóla og jafnvel í einhverjum tilfellum milli skólastiga. Sem dæmi væri hægt að skipta námsefni í stærðfræði í hæfilega litla áfanga þannig að gera megi stutt kennslumyndbönd sem nemendur geta horft á þegar þeim sýnist – og eins oft og þeim sýnist.[1. Útkoman gæti t.d. verið eitthvað í ætt við það sem Kahn Academy gerir] Slíkt væri í góðu samræmi við markmið um einstaklingsmiðað nám þar sem námsval og námshraði miðast við getu, þroska og áhuga hvers og eins nemanda. Einn skóli (eða jafnvel einn kennari) gæti séð um að taka upp og útbúa efni sem margir skólar geta nýtt sér. Kennarar þyrftu þá ekki að eyða jafn miklum tíma í innlögn/fyrirlestra og gætu frekar nýtt tímann í dæmatíma og einstaklingsbundna aðstoð. Aukin samnýting námsefnis gefur tilefni til að ætla að hægt sé að auka gæði námsefnisins enn frekar en að sama skapi unnt að ná fram umtalsverðri hagræðingu með því að nýta tíma kennara enn fremur í að aðstoða nemendur í námi. Þessi breyting felur í sér mun umfangsmeiri breytingu á skólastarfi en sem nemur því að taka upp nýjan tölvukost. Til þess að vel megi til takast er nauðsynlegt að kennarar og annað skólafólk sé reiðubúið að breyta starfsháttum sínum. Þótt óskynsamlegt sé að hefta frumkvæði og sköpunargleði einstaka kennara eða einstaka skóla, hvernig spjaldtölvur skulu nýttar í skólastarfi, er skynsamlegt að huga að því hvaða kröfur skal gera þannig að tími og fjármunir nýtist sem best. Sem umboðs- og þjónustuaðili Samsung Mobile á Íslandi er okkur hjá TVR ljúft og skylt að benda á að spjaldtölvurnar frá Samsung henta einkar vel í skólastarfi. Hér að neðan eru nokkrir helstu kostir þeirra útlistaðir:

Íslenskt notendaviðmót

Það hefur lengi verið keppikefli Íslendinga að varðveita og viðhalda íslenskri tungu þannig að ávallt megi finna orð á íslensku yfir þau viðfangsefni og þær nýjungar sem upp koma á hverjum tíma. Íslendingar geta notað „fartölvu í leigubíl“ á meðan frændur okkar Danir þurfa að láta sér nægja að nota „laptop i taxa“. Til þess að svo megi vera áfram þarf skólastarf á Íslandi að miðast að því að nemendur hafi aðgang að námsefni og tölvubúnaði á íslensku ef þess er nokkur kostur. Í Málstefnu Stjórnarráðs Íslands[2. Sjá nánar Málstefnu Stjórnarráðs Íslands] segir m.a.:

…stjórnvöld skuli tryggja að unnt verði að nota íslensku á öllum sviðum íslensks þjóðlífs og að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skuli sjá til þess að hún sé notuð.

Spjaldtölvurnar frá Samsung byggja á notendaviðmótinu Android sem er á íslensku og uppfylla þær því þá grundvallarkröfu sem gera má til búnaðar sem nota á í íslensku skólastarfi.

Íslenskur talgreinir

Fyrir utan íslenskt notendaviðmót – sem auðvitað felur í sér að hægt er að skrifa „þ“ og „ð“ og alla aðra bókstafi íslenska stafrófsins – skilja Android spjaldtölvur og símar mælt íslenskt mál! Vegna brautryðjendastarfs Google, Háskólans í Reykjavík og Máltækniseturs við söfnun íslenskra raddsýna í opinn gagnagrunn sem kallast Almannarómur geta notendur þessara tækja notað talgreini sér til aðstoðar. Fyrir utan almennt notagildi til að lesa upp í stað þess að skrifa texta (t.d. í tölvupósti eða smáskilaboðum) má hugsa sér að hægt verði að nýta þessa tækni í skólastarfi – ekki síst fyrir þá sem eiga erfitt með að nota eigin rithönd eða aðrar hefðbundnari aðferðir til að slá inn texta. Jafnframt er íslenskur talgreinir ein grundvallar forsenda þess að unnt verði að þróa næstu kynslóð notendaviðmóta sem notast við raddskipanir á íslensku.

Opið stýrikerfi

Android er opið stýrikerfi ólíkt sumum öðrum stýrikerfum sem ganga út frá lokaðri og miðlægri stýringu. Þessi eiginleiki Android býður upp á fjölbreytileika sem m.a. kemur fram í mikilli grósku í hugbúnaðargerð auk þess sem úrval tækja frá mörgum framleiðendum er mikið. Hvort tveggja skiptir máli þegar kemur að því að taka stefnumótandi ákvarðanir um þróun skólastarfs.

Opin högun

Opin högun skiptir verulegu máli bæði þegar litið er til kerfis en ekki síður þegar litið er til gagna. Þetta á einkar vel við í skólastarfi þar sem námsefni – skólabækur, verkefni, próf, sýnikennsla, fyrirlestrar o.s.frv. – þarf að vera aðgengilegt sem flestum og ekki bundið einu tilteknu stýrikerfi eða forriti. Til þess að tölvutækni nýtist sem best til að þróa megi skólastarf er gagnlegt að huga að dreifingu og endurnýtanleika námsefnisins milli kennara og milli skólastofnana. Hætt er við því að áfram muni stór hluti tíma kennara fara í að „finna upp hjólið“ – endurtaka það sem þegar hefur verið gert áður og annarsstaðar ef þessi þáttur gleymist. Eins er hætta því að (náms)efni úreldist fyrr en ella ef geymsluformið (t.d. skráartegund) leggst af. Dæmi um slíkt eru bæði gömul og ný.

Gæði og góð þjónusta

Samsung er stærsti framleiðandi á snjallsímum í heimi og hafa Galaxy símarnir notið mikilla vinsælda og hlotið lof gagnrýnenda. Spjaldtölvurnar frá Samsung eru einnig á mjög hraðri uppleið enda fer þar saman fáguð hönnun, lág bilanatíðni og framúrskarandi notkunarmögueikar. Öll þjónusta við þessi tæki er í höndum TVR, sem rekur eina viðurkennda þjónustuverkstæði landsins fyrir Samsung Mobile vörur.

Lokaorð

Möguleikarnir á hagnýtingu spjaldtölva í skólastarfi eru nær óþrjótandi. Eins og fram kemur í nýlegri skýrslu[3. Skýrslan – spjaldtölvur í skólastarfi – er aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar.] Ómars Arnar Magnússonar, aðstoðarskólastjóra í Hagaskóla, um spjaldtölvur í skólastarfi á aðalatriðið að vera að huga að nýjum leiðum í skólastarfi á meðan tækin eiga að vera aukaatriði. Óhætt er að taka undir þau orð. Þótt spjaldtölvan muni seint koma í stað kennarans má hins vegar gera sér vonir um að hægt sé að gera skólastarf hnitmiðaðra, skilvirkara, ódýrara og skemmtilegra með skynsamlegri nýtingu spjaldtölvunnar.