Verslaðu af öryggi

Góð leið til að tryggja að þú sem neytandi fáir ósvikin Samsung Galaxy í hendurnar er að spyrja um innsiglið “Approved for Nordic operators”.

Kennitoluflakk-whiteNokkuð hefur borið á „gráum innflutningi“ – þ.e. innflutningi á vörum framhjá viðurkenndum upboðs- eða dreifingaraðilum – á vinsælum tækjum m.a. á tilboðssíðum á netinu. Einna algengast er að sjá tilboðsverð á Samsung Galaxy SIII símanum sem valinn var símin ársins 2012. Ástæða er til að hvetja neytendur til að vera á varðbergi gagnvart slíkum gylliboðum enda kennir reynslan okkur að ástæða sé til að efast um vilja og getu þeirra aðila sem að þeim standa að uppfylla lögbundnar skyldur varðandi ábyrgðir, skattskil og annað sem gera má kröfu um í heiðvirðum viðskiptum. Einstaka aðilar eru jafnvel nægilega óforskammaðir að þeir reyna ekki að fela þessa háttsemi sína ef marka má fréttir.

Þeir neytendur sem verða fyrir því óláni að fá gallað eintak í hendur eða á annan hátt þurfa að nýta sér lögvarinn neytendarétt sinn komast of oft að því að þeir sem standa í „gráum innflutningi“ uppfylla ekki skyldur sínar gagnvart neytendum. Það getur verið kostnaðarsöm lexía.

Sem formlegur dreifingaraðili Samsung Mobile á Íslandi vill TVR stuðla að árvekni neytenda um þessi mál þannig að kaupendur Samsung tækja fái góða reynslu af tækjunum og allri þjónustu í kringum þau en TVR rekur einnig eina viðurkennda þjónustuverkstæðið fyrir Samsung síma og spjaldtölvur á Íslandi.

Við viljum því hvetja fólk til að spyrjast fyrir um uppruna þeirra tækja sem söluaðilar bjóða. Samsung símarnir (og spjaldtölvurnar) sem TVR selur eru s.k. ‘nordic spec’ á meðan tæki sem koma með „gráum innflutningi“ eru gjarnan ‘euro spec’. Fyrir utan mismun í hugbúnaði sem getur haft áhrif á virkni tækisins liggur munurinn fyrst og fremst í því að ‘euro-spec’ tæki (sem flutt eru með þessum hætti til landsins) eru ekki í ábyrgð frá framleiðanda hér á Íslandi á meðan ‘nordic spec’ tæki sem TVR kaupir beint af framleiðanda njóta fullrar ábyrgðar.*

Samsung: Approved for Nordic operators

Til að einfalda neytendum að þekkja muninn hóf Samsung á síðasta ári að merkja umbúðir utan um tækin. Þannig eru tæki sem ætluð eru til sölu hér á landi (og á Norðurlöndunum) merkt með innsilgi sem á stendur: “Approved for Nordic operators”. Slíkt innsigli merkir að tækið virkar á íslenskum fjarskiptakerfum og að tækið er í ábyrgð frá framleiðanda sem TVR sér um að uppfylla fyrir hönd Samsung. Innsiglið tryggir einnig að viðbótarþjónusta á borð við ódýr skjáskipti er einnig í boði fyrir eigendur þessara tækja. Slík þjónusta stendur eigendum ‘euro spec’-tækja ekki til boða.

Mikill meirihluti þeirra Samsung tækja sem seld eru á Íslandi í gegnum fjarskiptafyrirtækin, Elko og aðrar betri verslanir eru ‘nordic spec’ tæki sem njóta fullrar ábyrgðar frá framleiðanda. Lítill hluti neytenda lætur hins vegar glepjast af gylliboðum misvandaðra aðila sem bjóða lægra verð – sem jafnvel er gert í skjóli undanskota frá opinberum gjöldum eða með því að veita ekki þá ábyrgðarþjónustu sem lögboðin er.

Slík viðskipti eru til óþurftar fyrir alla: Fyrir neytendur sem of oft lenda í því að þurfa að greiða fyrir viðgerðir sem annars myndu falla undir ábyrgð. Fyrir skattgreiðendur sem óbeint neyðast til að greiða vangreidd opinber gjöld óreiðumanna sem standa í „gráum innflutningi“ og fyrir okkur hjá TVR sem verðum fyrir því að vörumerki okkar bíða hnekki þegar viðskiptavinir fá ekki þá þjónustu sem þeir hafa væntingar um.

Við viljum því hvetja neytendur til að halda árvekni sinni og spyrja söluaðila um uppruna og ábyrgðir áður en ákvörðun um kaup er tekin.


* Vert er að árétta að einstaklingar sem keypt hafa Samsung síma eða spjaldtölvur í útlöndum og flutt hingað heim njóta einnig ábyrgðar að því tilskyldu að þeir getir framvísað kaupnótu og ábyrgðarskírteini – annað hvort European Block Warranty card ef tækið er keypt innan EES-svæðisins eða Limited International Warranty card ef tækið er keypt utan EES-svæðisins. Eðlileg vernd neytenda er því tryggð.